Veiðiréttarhafar

Mynd | Einar Falur Ingólfsson
Mynd | Einar Falur Ingólfsson

Athugasemdir / mótmæli við frummatsskýrslu vegna 10.000 tonna framleiðslu á laxi í Seyðisfirði, dags. 2. nóvember 2020.

Friðbjörn E. Garðarsson lögmaður

Til AX lögmannsþjónustu hefur leitað [...], kt. [...] og falið að koma á framfæri athugasemdum og mótmælum við frummatsskýrslu Fiskeldis Austfjarða hf. (hér eftir FA) vegna 10.000 tonna framleiðslu á laxi í Seyðisfirði, dags. 2. nóvember 2020.

Umbj. okkar er veiðiréttarhafi í Fjarðará, Loðmundarfirði og hefur þannig sérstakra hagsmuna að gæta vegna þeirrar framleiðslu sem Fiskeldi Austfjarðar leitast við að koma til framkvæmdar. Umbj. okkar mótmælir fyrirhuguðum framkvæmdum og niðurstöðum frummatsskýrslu með vísan til þeirra röksemda sem hér fara á eftir, en telja verður að þær röksemdir eigin einnig við um flesta aðra veiðiréttarhafa, a.m.k. á austurlandi.  

Veiðiréttindi umbj. okkar í Fjarðará njóta verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Verðmætin eru m.a. fólgin í veiðum á villtum íslenskum laxi. Fyrirhugað sjókvíaeldi FA gengur gegn þessum eignarréttindum eins og nánar verður nú rakið. 

Umbj. okkar hefur síðustu þrjá áratugi eytt gríðarlegum tíma og fjármunum til þess að rækta Fjarðará upp sem laxveiðiá m.a. með því að sleppa miklu magni seiða frá seiðaeldisstöðinni á Laxamýri í Norðurþingi auk þess að útbúa ný hrygningasvæði í ánni og bæta þau sem fyrir voru. Hefur áin síðustu 20 ár verið sjálfbær laxveiðiá.

Áform FA lúta að því að rækta lax af Saga eldisstofni. Þótt tegundin henti fiskeldisframleiðendum vel er vitað að frjór fiskur af þessum stofni verður kynþroska og er vel til þess fallinn að blanda erfðaefni sínu saman við villta stofna hér á landi, sleppi hann úr kví. Honum hefur enda gengið það vel í Noregi, sbr. síðari umfjöllun. Á hverju ári veiðast margir strokulaxar í íslenskum ám, en ekki er ástæða til að ætla að allir þeir laxar sem sleppa, veiðist. 

Í frummatsskýrslu er leitast við að gera lítið úr þeirri hættu sem að villta laxastofninum steðjar af þessum sökum. Í skýrslunni er m.a. vísað til rannsóknar í Noregi því til stuðnings, sbr. bls. 94. Í því sambandi er þó ástæða til að draga fram hið augljósa um að af þeim 175 villtu laxastofnum sem skoðaðir voru höfðu 50 þeirra orðið fyrir mjög miklum breytingum á erfðasamsetningu og staða stofns því skilgreind alvarleg. Í öðrum 11 stofnum taldist staða slæm í þessu tilliti. Í 54 stofnanna þótti staða í meðallagi. Af þeim 175 stofnum sem rannsakaðir voru höfðu aðeins 60 ekki orðið fyrir breytingum. Erfðaefni eldislax hefur því einungis látið 34% villtu stofnanna ósnortið. Skýrsluhöfundur virðist láta sér þetta í léttu rúmi liggja. 

Þótt laxeldi í sjó hafi ekki verið stundað jafnlengi á Íslandi er engin ástæða til að ætla að betur fari hér á landi. Tilvísanir til þess að litlar líkur séu á stroki, litlum lífslíkum slíkra fiska og takmarkaðri hæfni til að æxlast eru einfaldlega í andstöðu við þá reynslu sem fyrirliggjandi er. Í frummatsskýrslu er enda gert ráð fyrir talsverðu stroki laxfiska úr sjókvíunum þótt byggt sé á óljósum gögnum og gefin sú forsenda að árangur FA í þessum efnum verði a.m.k. á pari við það sem langbest hefur náðst ytra á einstöku ári og að engir smærri fiskar sleppi. Engin vissa er fyrir slíku. Í þessu sambandi er rétt að benda á að þótt villtir stofnar laxa séu einstakir hér á landi og mikilvægir lífríki og veiðiréttarhöfum þá eru þeir í eðli sínu ekki umfangsmiklir og þar af leiðandi berskjaldaðri gagnvart erfðablöndun eins og raunar bent er á í frummatsskýrslu. Af því leiðir hins vegar ekki að lítil verðmæti séu í þeim fólgin fyrir einstaka veiðiréttarhafa, íslenskt þjóðarbú og náttúru landsins. 

Þrátt fyrir framangreint áformar FA að hafa bróðurpart framleiðslu sinnar frjóan lax, eða 6.500 tonn. Er það rökstutt með vísan til þess að áhættan sé ekki eins mikil í ljósi þess hversu vel verður staðið að verki. Það vekur hins vegar athygli að sú afstaða, að ætla að ala frjóan lax, byggir ekki á því að ómögulegt eða torsótt sé að ala ófrjóan lax sem sama hætta stafar ekki af, enda lúta áætlanir FA að því að framleiða 3.500 tonn af slíkum laxi og hefur félagið þegar hafið eldi slíkra fiska og mun að eigin sögn standa að rannsóknum á í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun og Háskólann á Akureyri. Miðað við það sem fram kemur í frummatsskýrslu er það fyrst og fremst skortur á markaðssetningu sem stendur því í vegi að þessi mjög svo ábyrgari framleiðslukostur nái til meirihluta eða allra framleiðslunnar. Ekki er dregið í efa að slíkt geti haft í för með sér minni framlegð til skamms tíma. Umbj. okkar bendir hins vegar á að ekki dugi að tjalda til einnar nætur og verði af laxeldinu með frjóum laxi, hvað þá í svo tröllauknu magni sem að er stefnt, leiðir það til verulegs tjóns fyrir hann og fjölmarga aðra veiðiréttarhafa. Þar er enn fremur um að ræða óafturkræf spjöll á stofni sem hefur þróast hér á landi yfir langan tíma. Slíkt væri í hróplegri andstöðu við hvers kyns sjónarmið um náttúruvernd og vernd villtra dýra og erfðahreinleika. 

Í frummatsskýrslu er gengið svo langt að draga upp þá mynd að eldi í lokuðum kerfum í landi eða í sjó séu ekki góðir kostir. Umbj. okkar frábiður sér slíkar skýringar sem miða að því einu að slá ryki í augu stjórnvalda svo FA eigi von um að fá ekki aðeins að stunda fiskeldi í Seyðisfirði, í andstöðu við hagsmuni nær allra annarra, heldur einnig að komast í aðstöðu til að gera það með ódýrum hætti til að hámarka arðsemi á kostnað villtra stofna og réttinda annarra. Augljóst mál er að hætt á stroki er allt önnur og minni ef eldi er í landi og sömuleiðis ef lokaðar kvíar er um að ræða. Umbj. okkar bendir á að slíkt væri enn fremur líklegra til þess að eyða þeirri óvissu sem tilgreint er í frummatsskýrslu að leiðir af áhrifum fiskeldisins á lífríkið, sbr. bls. 66 í skýrslunni. 

Í frummatsskýrslu er sníkjudýrinu laxalús gerð nokkur skil. Gerð er grein fyrir að þegar laxalús berst á eldissvæði þá margfaldast framleiðsla þessa vágestar og hafstraumar dreifa henni síðan í umhverfið. Þetta er einn fylgifiskur þess ósjálfbæra verksmiðjuiðnaðar sem að er stefnt og leitast við að réttlæta í frummatsskýrslu með ráðum og dáð.

Í frummatsskýrslu er vikið að því að hætta á því að strokulaxar leiti í laxveiðiár sé mest í þeim ám sem næstar eru fiskeldi. Réttindi umbj. okkar eru í Fjarðará í Loðmundarfirði, sem er næsti fjörður norðan við Seyðisfjörð. Fjarlægð er því sérstaklega lítil og nær öruggt að strokufiskar myndu leita í ána. Hinu sama gegnir vitaskuld um aðrar ár, t.d. í Vopnafirði, enda 130 km ekki langt ferðalag fyrir lax. Í þessu sambandi er á það bent að strokufiskar geta hæglega ferðast um langan veg og gengið í aðrar veiðiár á Austurlandi sem miklu fjær eru. Í því sambandi er bent á að laxar sem sluppu á sínum tíma í Norðfirði veiddust m.a. í Selá, Hofsá í Vopnafirði og Breiðdalsá, sbr. bls. 94 í frummatsskýrslu. Af þessu er augljóst að forsendur sem gefnar eru í frummatsskýrslu, um að fullnægjadi fjarlægð frá laxveiðám réttlæti fiskeldið vegna þess að hætta sé ekki á að villtir stofnar spillist, styðjast ekki við rök. 

Umbj. okkar frábiður sér langsóttar ályktanir í frummatsskýrslu þar sem leitast er við að kasta rýrð á áhættumat. Síst verður talið að sú aðgæsla sem stefnt er að sé of mikil í þessum efnum. Þá virðast öll viðmið í frummatsskýrslu varðandi göngu eldislaxa í ár miðast við að allir hafi þeir veiðst og jafnframt hafi þeir ekki sloppið snemma á eldistímanum. Í þessu sem öðru er í frummatsskýrslu varpað fram þeirri hagstæðustu barnslegu draumsýn sem hægt er að ímynda sér. 

Þótt frummatsskýrsla beri þess glögg merki að fært sé í stílinn og dregið úr þeirri vá sem sjókvíaeldi fyrir lax er fyrir villta laxastofna og lífríkið í heild, virðist sem skýrsluhöfundur geri sér grein fyrir því að að rökin verði ekki keypt eins og nýtt net. Af þeim sökum gerir skýrsluhöfundu sér sérstakt far um að gera lítið úr villtum laxastofnum á Íslandi og veiðum í ám á Austurlandi. Skrifin lýsa alvarlegu virðingar- og skilningsleysi á villtum laxastofnum og mikilvægi þeirra. Skýrsluhöfundur velur síðan að draga saman veiðitölur frá 2005 – 2017 þrátt fyrir að skýrslan sé lögð fram í nóvember 2020. Í töflu á bls. 13 er vísað til veiðitalna 2017 í Selá í Vopnafirði, en vísað er til þess að veiði hafi numið 888 löxum. Ekki verður séð að þessar tölur komin heim og saman við yfirlit Landssambands veiðifélaga þar sem veiði 2017 er tilgreind 937 laxar í ánni. Mestu varðar þó að veiði var til muna meiri næstu ár. Árið 2018 nam hún 1340 löxum, árið 2019 1484 löxum og árið 2020 veiddust 1258 laxar, en áin var þá í fimmta sæti yfir þær ár landsins sem flestum löxum skiluðu. Í frummatsskýrslu er vísað til þess að veiði í Hofsá 2017 hafi numið 547 löxum. Veiðitölur Landssambands veiðifélaga eru hins vegar 589 laxar það ár, 697 laxar árið eftir, 711 laxar 2019 og 1017 laxar 2020. Skoðun veiðitalna áratugi aftur í tímann sýnir enn fremur mikla veiði. Framangreint er eingöngu sett fram í dæmaskyni til að varpa ljósi á ranga framsetningu í frummatsskýrslu, en ekki er ástæða til að ætla að rangar upplýsingar og tilhliðranir  takmarkist við þetta atriði í skýrslunni. 

Í tengslum við framangreint er vakin athygli á því að löng umfjöllun um vankanta Breiðdalsár og fleiri straumvatna á Austurlandi er í besta falli ómakleg. Veiði í ánum hefur verið viðarandi áratugum saman hvernig svo sem tilurð villtra stofna þar er til komin í öndverðu.

Að lokum verður ekki orða bundist í tengslum við skipulagsþátt þeirrar framkvæmdar sem FA stefnir að. Samkvæmt yfirlýsingum félagsins lítur það svo á að ákvæði laga um skipulag haf- og strandsvæða nr. 88/2018 gildi ekki um fyrirhuguð áform félagsins. Virðist félagið telja að af því leiði að engu skipulagsvaldi sé fyrir að fara þrátt fyrir að allt hið fyrirhugaða sjókvíaeldi falli sannarlega innan ytri marka Seyðisfjarðarhafnar og sé upp við siglingaleiðir og Farice strenginn. Umbj. okkar bendir á að Seyðisfjarðarhöfn og sveitarfélagið sem slíkt hafi, a.m.k. til þessa dags, hlutast til um að veita starfsemi og framkvæmdum brautargengi sem jákvæð séu samfélagi og gangi ekki á rétt annarra og mikilvæga náttúru. Ekki verður séð að áform FA sem rakin eru í frummatsskýrslu samræmist í neinu skipulagi eða hagsmunum nokkurs annars í grennd við fyrirhugað 10.000 tonna sjókvíaeldi.  

Með vísan til þess sem að framan greinir ítrekar umbj. okkar andmæli sín við fyrirliggjandi frummatsskýrslu og að fyrirhuguðum framkvæmdum FA er harðlega mótmælt. Áskilinn er réttur til að koma á framfæri frekari mótmælum, gerist þess þörf.

Kópavogi, 22. desember 2020

Previous
Previous

Skipulagsþáttur